-
Dagskipulag
07.30 leikskólinn opnar á Grænudeild
08.00 allar deildir opna
08.15 morgunmatur
09.15 frjáls leikur / hópastarf
10.15 útivera / hópastarf
11.30 samverustund
11.50 hádegismatur
12.30 hvíld
13.00 frjáls leikur / útivera / hópastarf
14.30 samverustund
14.50 síðdegishressing
15.30 val / frjáls leikur
16.45 deildir sameinast á Grænudeild
17.00 leikskólinn lokar
-
Könnunarleikurinn
Á yngri deildum bjóðum við upp á könnunarleik (Heuristic play).
Könnunarleikur er aðferð sem hentar börnum yngri en þriggja ára vel til náms. Barnið fær að leika með hlutina á sinn eigin hátt og þannig uppgötva eiginleika þeirra.
Í könnunarleik erum við með 5-6 taupoka sem innihalda mismunandi leikefni eins og til dæmis, lykla, plastdósir, keðjur, pappahólka og þvottaklemmur.
Könnunarleikurinn fer fram í minna herbergi deildar til að börnin fái næði til leiks.
Þegar leikstund hefst hefur kennari sett upp jafnmargar stöðvar og börnin eru, á hverri stöð er ein til tvær stórar dósir og svo smá dót úr hverjum poka. Þannig fá öll börnin samsvarandi leikefni. Hver leikstund tekur um 45 mín með samantekt. -
Leikurinn
Frjáls leikur er mikilvægasta náms- og þroskaleið barna og eðlilegt tjáningarform þeirra. Í gegnum leikinn vinna börnin úr daglegum upplifunum og öðlast færni í félagslegum samskiptum. Þar læra þau að bera virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu, þar sem nauðsynlegt er fyrir þau að vinna saman og taka tillit til hvers annars í leiknum. Leikur með opinn efnivið ýtir undir sköpunargleði barnanna og þar fær hugmyndaflug þeirra að njóta sín. Leikurinn gerir þeim kleift að læra hvert af öðru þar sem hvert og eitt leggur sína reynslu inn í leikinn og þannig miðla þau af þekkingu sinni og upplifun til annarra.
-
Val
Á Hofi er valið rammi utan um frjálsa leikinn. Börnin velja í gegnum valkörfur þ.e.a.s. hvert barn á mynd af sér, auk þess sem myndir eru til af viðfangsefnum og svæðum sem hægt er að velja um. Börnin fá sjálf að velja viðfangsefni og félaga, valkerfið er einfalt og sýnilegt. Á yngri deildum er valið einfaldara og færri viðfangsefni í boði. Eftir því sem börnin verða eldri fjölgar valmöguleikum og börnin hafa meira um það að segja hvaða viðfangsefni/efnivið boðið er upp á. Börnin velja einu sinni til þrisvar á dag, eftir viðveru þeirra í leikskólanum. Börnunum er frjálst að skipta um viðfangsefni á valtímanum.
Valið er skráð reglulega og því er hægt að fylgjast með áhugasviði og félagavali barnanna og hvort fjölbreytileiki í frjálsa leiknum sé nægilegur.