18. sept
Kominn miður september... og hér er allt á fullu. Öll börn eru nú byrjuð og vetrarstarfið að komast í gang. Í september eru auðvitað líka alls kyns uppákomur, 8. september er alþjóðlegur dagur læsis og þemað að þessu sinni var að segja sögur, í því er Þórdís okkar snillingur og hún hafði sögustund fyrir öll börnin frammi á hreyfisvæði. Þegar sögustundinni lauk fengu börnin að smakka nokkrar tegundir af salati og grænmeti úr garðinum okkar.
16. september er dagur íslenskrar náttúru. Við létum nú duga að fara út í garð í góða veðrinu en kveiktum upp í eldstæðinu okkar og drukkum heitt súkkulaði og borðuðum smurt brauð með. Það var svo ótrúlega gott veður þennan dag að við vorum úti nánasta allan daginn.
Elstu börnin eru komin á heilmikið flakk, búin að fara í Þjóðleikhúsið og fara eftir helgi á Sinfóníutónleika. Þau eru einnig að fara á námskeið í Húsdýragarðinum og í kynningu út í Grasagarð... það er sko nóg um að vera.
Næst elstu börnin sem eru fædd 2011 eru líka að fara í Húsdýragarðinn í nokkrum hópum.
Heimsóknir í Ármann eru byrjaðar og hver deild auglýsir þegar að þeim kemur.
Endilega fylgist með tölvupóstum frá deildarstjórum því það er alltaf eitthvað um að vera hjá okkur
Njótið helgarinnar!